Rekja má innleiðingu samfélagsábyrgðar í Landsbankanum með því að lesa samfélagsskýrslur bankans í gegnum árin. Við efnistök og afmörkun skýrslunnar var litið til eftirfarandi atriða:
Lögð er áhersla á starfsemi Landsbankans án dótturfélaga, nema annað sé tekið fram. Fjallað er um sömu viðmið og í fyrri skýrslum en umfjöllun um fleiri vísa (e. indicators) bætt við þar sem upplýsingar hafa orðið aðgengilegar.
Við val á vísum var litið til samfélagsskýrslna sambærilegra fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum og þess hvað er viðeigandi fyrir starfsemi Landsbankans.
Skýrslan endurspeglar þekkingu bankans á viðfangsefninu á þeim tíma sem hún er rituð. Með útgáfu skýrslunnar er ekki gefið í skyn að bankinn þekki til fulls áhrif sín á samfélagið, né heldur að samfélagsábyrgð hafi verið að fullu innleidd í bankanum.
Við gerð skýrslunnar er reynt að veita innsýn í það sem vel er gert, það sem betur má fara og álitamál sem komið hafa upp við innleiðingu samfélagsábyrgðar. Einnig vonast Landsbankinn til þess að önnur fyrirtæki geti lært af reynslu bankans af innleiðingu samfélagsábyrgðar.
Tilvísunartafla sem fylgir skýrslunni skýrir að hve miklu leyti grein er gerð fyrir hverju viðmiði. Um sum viðmiðanna er fjallað ítarlega í skýrslunni á meðan einungis er gerð grein fyrir öðrum í tilvísunartöflunni. Til að forðast endurtekningar má finna upplýsingar um einstök viðmið í tilvísunartöflunni sem vísa til annarra miðla og skýrslna bankans þar sem við á.
Allar upplýsingar í skýrslunni eiga við um almanaksárið 2016. Landsbankinn hvetur lesendur til að senda bankanum ábendingar á pr@landsbankinn.is um hvaðeina sem betur má fara í þeim hluta starfseminnar, sem snýr að samfélagsábyrgð, sem og ábendingar um úrbætur á framsetningu skýrslunnar.
1 Samfélagsskýrslur Landsbankans eru aðgengilegar á vef bankans,
http://bankinn.landsbankinn.is/samfelagsleg-abyrgd/skyrslur/.
2 Hildur Hauksdóttir, MBA og sérfræðingur í samfélagsábyrgð.