Útgáfa

Umræðan, efnis- og fréttaveita Landsbankans

Umræðan, ný frétta- og efnisveita Landsbankans, opnaði í nóvember 2016. Á Umræðunni birtast áhugaverðar greinar um fjölbreytt efni, bæði um það sem er efst á baugi í fjármálaheiminum en einnig málefni sem tengjast breytingum í samfélaginu með einum eða öðrum hætti. Efnið hefur skýra vísun í hlutverk bankans sem hreyfiafl í íslensku samfélagi.

Greinarnar á Umræðunni spanna vítt efnissvið og myndbönd með viðtölum við sérfræðinga fylgja mörgum greinanna. Þróun á fjármálamarkaði er ofarlega á baugi og um það vitna greinar um breytta notkun reiðufjár og breytingar á hlutverki bankaútibúa, svo dæmi séu tekin. Í öðrum greinum er fjallað um samfélagstengd málefni sem ekki tengjast starfsemi bankans með beinum hætti, t.d. framtíðargreiningu, afkomu tónlistarfólks og áramótabrennur.

Íslensku vefverðlaunin


Á Umræðunni hefur kastljósinu einnig verið beint að öryggismálum. Ein grein fjallaði til að mynda um svokallaðar fyrirmælafalsanir og hvernig megi forðast þær. Á undanförnum árum hefur tilraunum til fjársvika á netinu fjölgað umtalsvert og Landsbankanum er mikið í mun að vara viðskiptavini sína og aðra við hættum sem af slíkri glæpastarfsemi stafar. Fyrirhuguð er útgáfa fleiri greina um öryggismál á næstunni.

Þjóðhagsgreiningar Hagfræðideildar Landsbankans, Hagsjá og Vikubyrjun, birtast einnig á Umræðunni. Í Hagsjá eru reglulegir pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur og margt fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt er frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum o.s.frv.

Á Umræðunni má einnig finna upptökur, glærur og annað efni frá ráðstefnum á vegum bankans.

  • Samfélagið - Áhugaverðar greinar og viðtöl um nýjungar og víðtækar breytingar sem eiga sér stað í starfsemi Landsbankans, í fjármálaheiminum og samfélaginu öllu.
  • Efnahagsmál - Greinar og rannsóknir um efnahagsmál frá Hagfræðideild Landsbankans.
  • Ráðstefnur - Fjölbreytt efni frá ráðstefnum og fundum bankans.
  • Fjárhagur - Styttri fræðslugreinar þar sem starfsfólk Landsbankans miðlar af þekkingu sinni og reynslu um málefni er snerta fjármál heimilisins og efnahagsmál.

Forritun Sprota-appsins fékk viðurkenningu á Íslensku vefverðlaununum fyrir árið 2016. Auk þess var Sprota-appið tilnefnt sem besta vefappið.
Nánar um Íslensku vefverðlaunin

Spota-appið – Nýtt app Landsbankans fyrir börn

Á árinu 2016 kom út nýtt og bráðskemmtilegt app Landsbankans fyrir börn. Markmiðið var að útbúa séríslenskt app fyrir börn sem væri bæði fróðlegt og skemmtilegt. Sprota-appið er sannkallaður ævintýraheimur með fjölbreyttum leikjum, sögum, tónlist og fræðslu fyrir krakka á öllum aldri. Sprota-appið er íslensk framleiðsla frá grunni. Kári Gunnarsson teiknari sá um hugmyndavinnu, hönnun og teikningar; Felix Bergsson ritaði sögu og texta og íslenska fyrirtækið Aranja sá um forritunina.

Forritun Sprota-appsins fékk viðurkenningu á Íslensku vefverðlaununum fyrir árið 2016. Auk þess var Sprota-appið tilnefnt sem besta vefappið.

Hægt er að hala appinu niður endurgjaldslaust í Google Play og App Store og það er bæði fyrir Apple og Android síma. Appið var í raun hugsað sem rafræn gjafavara til að kynna Sprota og vini hans fyrir börnum á aldrinum 2-8 ára og forráðamönnum þeirra.

Hagfræðideildin gaf út 379 greiningar árið 2016

Hagfræðideild Landsbankans gegnir lykilhlutverki við að móta sýn Landsbankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands og utan. Deildin annast greiningu á hagkerfinu og gefur út þjóðhags- og verðbólguspár, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Deildin annast einnig greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði. Á árinu 2016 gaf Hagfræðideild alls út 379 greiningar, þar af 213 greiningar og spár um efnahagsmál og 166 greiningar í tengslum við skráð félög á hlutabréfamarkaði.

Í kjölfar kynningar Landsbankans á hagspá Hagfræðideildar í Hörpu í nóvember sl. var Þjóðhagur, ársrit deildarinnar, gefið út í heilu lagi á Umræðunni, umræðuvef Landsbankans. Um er að ræða fjórtán ítarlegar greinar um ólíka þætti efnahagslífsins á Íslandi og í heiminum öllum. Myndbönd með viðtölum við sérfræðinga Hagfræðideildar birtust einnig á Umræðunni, sem og á Facebook-síðu bankans.

Mikið er vitnað í hagfræðinga bankans og greiningar þeirra í fjölmiðlum. Auk þess fara þeir reglulega í fjölmiðlaviðtöl í samræmi við stefnu bankans um að vera virkur þátttakandi í samfélaginu.

Útgáfur Hagfræðideildar
Þjóðhagsgreiningar
Hagsjá 125
Þjóðhagur 2
Skuldabréfayfirlit 12
Vikubyrjun 50
Gjaldeyrismarkaður 12
Mánaðaryfirlit 12
   213
   
Hlutabréf
Afkomuspár 38
Viðbrögð við afkomu 38
Verðmat fyrirtækja 11
Mánaðaryfirlit hlutabréfa 11
Sérrit 12
Kennitölur félaga 6
Hluthafalisti 50
   166

Ráðstefnur og fundir

Landsbankinn stendur á hverju ári fyrir fjölbreyttum ráðstefnum og fundum, auk þess sem bankinn gefur út ýmis sérrit og greiningar um efnahagsmál og atvinnulífið. Á árinu 2016 stóð bankinn fyrir fimm ráðstefnum: um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, um aukin tækifæri á erlendum mörkuðum, um stöðu mála í mannvirkjagerð á Íslandi (í samstarfi við SI), um ábyrgar fjárfestingar og í lok árs stóð bankinn fyrir árlegri ráðstefnu þar sem Hagfræðideild Landsbankans kynnti nýja hagspá til næstu þriggja ára. Á þeirri ráðstefnu var einnig fjallað um hvað staða efnahagsmála á þeim tíma gæti þýtt fyrir þróun verðbréfamarkaðarins á næstu misserum.

Yfir eitt þúsund manns sóttu þessar ráðstefnur bankans sem hafa treyst sig í sessi sem mikilvægur vettvangur margra af helstu viðfangsefnum samtímans. Undir liðnum Ráðstefnur á Umræðunni birtast upptökur, glærur og annað efni frá ráðstefnum sem bankinn heldur. Mikið er lagt upp úr því að hafa efnið á vefnum sem ítarlegast og aðgengilegast fyrir alla.

Að auki voru haldnir 14 minni fundir víða um land þar sem meðal annars var fjallað um sparnað, fjárfestingartækifæri á Íslandi, eignastýringu og erlendar fjárfestingar.