Stefnumótun í samfélagsábyrgð

Í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir að fjármálafyrirtæki skuli í stefnumótun huga sérstaklega að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun og framfylgja skriflegum reglum um siðferði og samfélagsábyrgð. Í stefnunni er einnig lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki horfi til alþjóðlegra fyrirmynda á þessu sviði.

Í samræmi við eigendastefnuna hefur Landsbankinn verið virkur þátttakandi í starfi Global Compact, er aðili að verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UNPRI) og gefur árlega út samfélagsskýrslu í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI).

Í kjölfar heildarendurskoðunar á stefnu bankans árið 2015 var samfélagsstefna Landsbankans endurskoðuð á árinu 2016 út frá hinni nýju stefnu. Í stefnunni er áfram lögð áhersla á að vera til fyrirmyndar og að byggja upp velferð til framtíðar.

Bankinn hefur á síðustu árum náð töluverðum árangri í samþættingu samfélagsábyrgðar í starfsemi sinni og hefur áherslan verið á innra starf, s.s. umhverfisvottun, jafnlaunavottun, loftslagsmál, stjórnarhætti, vistvænar samgöngur og upplýsingagjöf, eins og samfélagsvísar þessarar skýrslu sýna. Í nýrri stefnu er haldið áfram á sömu braut en aukin áhersla er lögð á samþættingu samfélagsábyrgðar í vöruframboði bankans, ráðgjöf, fjárfestingum og lánveitingum. Bankinn vill vera hreyfiafl. Sú viðleitni felur í sér frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök, um nauðsynlegar breytingar á atvinnuháttum og innviðum til að stuðla að samfélagsábyrgð íslensks atvinnulífs og samfélags. Áherslan er á að bankinn, í samstarfi við aðra hagsmunaaðila, greini og skapi ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.

Samfélagsstefna Landsbankans er mótuð í samstarfi við og með víðtækri aðkomu tekjusviða bankans. Stefnan byggir á fyrri stefnu og fjórum alþjóðlega viðurkenndum grunnviðmiðum um sjálfbærni.

Framtíðin mun kalla á ákvarðanir í álitamálum sem bankinn hefur ekki vitneskju um í dag. Samfélagsstefna bankans og grunnviðmið um sjálfbærni mynda ramma sem styður slíka ákvörðunartöku.

Samfélagsstefnunni fylgir aðgerðaráætlun í tveimur hlutum. Framkvæmdahluta stefnunnar er skipt í tvennt og fyrri hluti aðgerðaráætlunarinnar, fram til ársloka 2018, felur í sér uppfræðslu allra starfsmanna í samfélagsábyrgð og samtal við viðskiptavini, birgja og aðra hagsmunaaðila um samfélagsábyrgð í starfsemi fjármálafyrirtækja. Að þessu loknu verður bankinn enn betur í stakk búinn, í seinni hluta aðgerðaráætlunarinnar, að innleiða samfélagsábyrgð í ráðgjöf, útlánum og fjárfestingar bankans.

Samfélagsstefna bankans á að endurspegla það viðhorf að skýr stefna og markmið í samfélagsábyrgð hafi jákvæð áhrif á útlán og ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma, dragi úr rekstraráhættu og styðji við það markmið að viðskiptavinir Landsbankans geti sagt „svona á banki að vera“.


Stefnumörkun bankans, þar með talið í samfélagsábyrgð, liggur hjá framkvæmdastjórn og bankaráði Landsbankans.

Dreifð ábyrgð

Stefnumörkun bankans, þar með talið í samfélagsábyrgð, liggur hjá framkvæmdastjórn og bankaráði Landsbankans.

Fram til ársins 2015 voru málefni samfélagsábyrgðar á höndum sérfræðings í samfélagsábyrgð. Sú staða var lögð niður í tengslum við stefnumótunarvinnu bankans árið 2015 og samfélagsábyrgð, eins og önnur málefni í stefnu bankans, innleidd í gegnum sérstaka stefnustrauma. Samfélagsábyrgðin rann inn í stefnustraum 4, Hagkvæmar stoðeiningar, en ábyrgðaraðilar þess verkstraums eru bankastjóri og framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatæknisviðs. Þetta var gert til að samþætta samfélagsábyrgðina kjarnastarfsemi bankans. Hvert einstakt svið bankans ber í dag ábyrgð á að skilgreina verkefni samfélagsábyrgðar í sinni starfsemi og innleiða þau í samræmi við stefnu bankans. Verkefnastjóri verkstraums 4 leiðir vinnu við samfélagsábyrgð í bankanum og hefur eftirlit með framvindu verkefna. Framkvæmdastjórn fjallar mánaðarlega um samfélagsábyrgð og önnur verkefni í stefnunni og þessi atriði eru einnig til umfjöllunar hjá framtíðarnefnd bankaráðs.