Hagsmunaaðilar

Landsbankinn hefur samráð við helstu hagsmunaaðila til að kynnast væntingum þeirra og sjónarmiðum varðandi starfsemi bankans. Lögð er rík áhersla á að samskiptin styðji þróun þjónustu bankans í samræmi við þarfir viðskiptavina og samfélags.

Hagsmunaaðilar skiptast í innri og ytri aðila. Innri aðilar eru viðskiptavinir, starfsmenn, hluthafar, birgjar og samfélag. Ytri aðilar eru stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, fjölmiðlar, fjárfestar, hagsmunasamtök og þrýstihópar.

Landsbankinn hefur ekki gert sérstaka hagsmunaaðilagreiningu á forsendum samfélagsábyrgðar en nýtir þess í stað ýmsar aðferðir eins og opna fundi, ábendingakerfi, skoðanakannanir, rýnihópa og samtöl við starfsmenn og viðskiptavini.

Landsbankinn stendur á hverju ári fyrir fjölda viðburða þar sem byggt er á samstarfi við hagsmunaaðila um ábyrga uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi en nánari upplýsingar má finna í kafla um samstarfsverkefni í þessari skýrslu.

Viðhorf

Landsbankinn hefur síðastliðin 4 ár mælt viðhorf starfsmanna til samfélagsábyrgðar bankans með könnun þar sem spurt var um mikilvægi samfélagsábyrgðar fyrir bankann. Í öll skiptin hefur samfélagsábyrgð verið talin mikilvæg en niðurstaðan sýndi fram á örlitla lækkun milli ára og mældist 3,93 af 5 árið 2016. Eins hafa starfsmenn verið spurðir um heildaránægju í starfi síðust ár og mældist heildaránægja árið 2016 4,3 af 5 mögulegum.

Landsbankinn hefur síðustu ár mælt viðhorf hagsmunaaðila til samfélagsábyrgðar með könnun þar sem spurt var hvort viðkomandi telji sinn aðalviðskiptabanka vera samfélagslega ábyrgan. Spurningin var borin fram fyrri part árs 2016 og mældist 2,5, sem er sambærilegt við meðaleinkunn annarra fjármálastofnanna. Spurningin var ekki borin upp árið 2015. Hún var borin upp á fyrsta ársfjórðung árið 2014 og mældist þá 2,9 og hefur einkunn Landsbankans því lækkað síðustu tvö ár.