Landsbankinn veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasambandi. Bankinn annast hefðbundna útlána- og innlánastarfsemi en sinnir einnig markaðsviðskiptum, sjóðastýringu í dótturfélaginu Landsbréfum, fyrirtækjaráðgjöf, einkabankaþjónustu og eignastýringu. Höfuðstöðvar Landsbankans eru í Austurstræti 11 í Reykjavík og nærliggjandi húsum en á því svæði hafa þær verið frá upphafi. Landsbankinn rekur enga starfsemi utan Íslands.
Í árslok 2016 átti Ríkissjóður Íslands 98,2% eignarhlut í Landsbankanum. Landsbankinn átti sjálfur 1,47% hlut. Aðrir hluthafar, sem eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans og fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands (aðrir en íslenska ríkið), áttu 0,33%.
Hjá Landsbankanum og dótturfélögum hans störfuðu 1.067 manns í 1.012 stöðugildum í árslok, þar af 62% konur og 38% karlar. Kynjahlutföllin eru óbreytt á milli ára.
Allir starfsmenn bankans í bankastörfum eru meðlimir Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og falla undir kjarasamninga SA og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).
Um Landsbankann | 31.12.2015 | 31.12.2016 | Breyting | |
---|---|---|---|---|
Einstaklingar í viðskiptum við Landsbankann* | 118.400 | 121.697 | 2,8% | |
Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann | 12.300 | 12.923 | 5,1% | |
Útibú og afgreiðslur | 38 | 37 | -2,6% | |
Stöðugildi | 1.063 | 1.012 | -4,8% |
*Virkir viðskiptavinir
Helstu kennitölur (ma.kr.) | 31.12.2014 | 31.12.2015 | 31.12.2016 | |
---|---|---|---|---|
Hreinar rekstrartekjur | 63.149 | 72.363 | 48.217 | |
Hagnaður eftir skatta | 29.737 | 36.460 | 16.643 | |
Arðsemi eiginfjár eftir skatta | 12,5% | 14,8% | 6,6% | |
Eiginfjárhlutfall (CAR) | 29,5% | 30,4% | 30,2% | |
Vaxtamunur eigna og skulda | 1,9% | 2,2% | 2,3% | |
Kostnaðarhlutfall | 56,0% | 43,8% | 48,4% | |
Heildareignir | 1.098.370 | 1.118.658 | 1.111.157 | |
Útlán sem hlutfall af innlánum viðskiptavina | 130,3% | 145,2% | 144,7% |
Fjöldi starfsmanna eftir ráðningarformi | Fastráðning | Lausráðning | Tímabundin ráðning | Samtals |
---|---|---|---|---|
Karl | 384 | 3 | 15 | 402 |
Kona | 623 | 14 | 28 | 665 |
Samtals | 1.007 | 17 | 43 | 1.067 |
Landsbankinn tekur þátt í eftirfarandi samstarfi um samfélagsábyrgð:
Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð. Landsbankinn var einn af stofnaðilum Festu árið 2011.
United Nations Global Compact. Landsbankinn er þátttakandi í UN Global Compact á heimsvísu.
United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI). UN PRI eru samtök fjárfesta, sjóðafyrirtækja og greinenda sem hafa það að markmiði að innleiða umhverfis- og samfélagssjónarmið, auk góðra stjórnarhátta, í ákvörðunartöku við fjárfestingarákvarðanir.
United Nations Environmental Programme Financial Initiative (UNEP-FI). Landsbankinn var einn af stofnaðilum UNEP-FI árið 1992.
Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.
Á hverju ári gerir Landsbankinn úttekt á því hvort viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.
Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í desember 2014 að Landsbankinn hefði fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar var byggð á úttekt á stjórnarháttum sem unnin var af Deloitte í nóvember 2014. Niðurstaða úttektar Deloitte Landsbankans var talin gefa skýra mynd af stjórnarháttum bankans og benda til þess að Landsbankinn geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í góðum stjórnarháttum.