Samfélagsskýrslan er nú í fyrsta sinn gefin út á vefformi en hún er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact. Landsbankinn hefur verið aðili að UN Global Compact í rúman áratug en í því felst skuldbinding um að bankinn sýni samfélagsábyrgð í verki.
Árið 2016 náði Landsbankinn mikilvægum áföngum hvað varðar samfélagsábyrgð. Við erum stolt af því að Landsbankinn hlaut gullmerki jafnlaunaúttektar PwC annað árið í röð. Bankinn leggur ríka áherslu á jafnréttismál og hefur það að markmiði að á meðal starfsmanna sé ekki til staðar óútskýrður kynbundinn launamunur.
Landsbankinn vill vera hreyfiafl í samfélaginu. Það gerum við m.a. með því að standa fyrir viðamikilli útgáfu, ráðstefnum og fræðslu. Á síðasta ári stóð Landsbankinn til að mynda fyrir ráðstefnu um Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum, þar sem fjallað var um margvísleg áhrif sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum kunna að hafa á íslenskt atvinnulíf og fjárfestingar.
Umræðan, ný efnis- og fréttaveita Landsbankans, var opnuð og þar er fjallað um efnahagsmál og fjármál í víðum skilningi. Vefurinn var valinn besta efnis- og fréttaveita ársins 2016 á Íslensku vefverðlaununum.
Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í samfélagsábyrgð og ætlum okkur að gera enn betur.
Það er ánægjulegt að sjá hversu mikið hefur dregið úr pappírsnotkun í starfsemi bankans, alls um 68,5% frá árinu 2012, þegar nýjar aðferðir við prentun voru teknar í notkun. Einnig hefur góður árangur náðst í að minnka úrgang, kolefnislosun vegna bíla og heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.
Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í samfélagsábyrgð og ætlum okkur að gera enn betur. Áfram verður unnið af krafti að innleiðingu stefnu í ábyrgum fjárfestingum. Landsbankinn skrifaði undir meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar árið 2013, svokallaðar PRI-reglur. Við teljum að skýr stefna í samfélagsábyrgð hafi jákvæð áhrif á útlán og ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr áhættu bankans.
Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni og að tryggja að tekið sé tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og viðmiða um góða stjórnahætti í allri starfssemi bankans. Samfélagsstefnan var uppfærð á síðasta ári. Aukin áhersla er nú lögð á samfélagsábyrgð í vöruframboði bankans, ráðgjöf, fjárfestingum og lánveitingum.
Í stefnumótunarvinnunni var lögð áhersla á víðtæka aðkomu tekjusviða bankans til að tryggja að samfélagsábyrgð yrði hluti af kjarnastarfsemi bankans. Stefnt er að því að innleiða fjögur alþjóðleg grunnviðmið um sjálfbærni í allri ákvarðanatöku bankans.
Við viljum eiga markvisst samtal við viðskiptavini, birgja og samfélagið um samfélagsábyrgð í fjármálastarfssemi. Við viljum eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um mikilvægar breytingar á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að samfélagsábyrgð í íslensku atvinnulífi og sjálfbærni í samfélaginu öllu.
Með skýra framtíðarsýn að leiðarljósi ætlar Landsbankinn að vera í fremstu röð hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.