Ræstingar
ISS sér um ræstingar á tæplega 30 þúsund fermetrum í bankanum. Árið 2016 notaði ISS 260 lítra af ræstiefnum í bankanum og eru 93% þeirra umhverfisvottaðir, ýmist með norræna umhverfismerkinu Svaninum eða Evrópublóminu, umhverfismerki ESB. ISS hefur fengið umhverfisvottun Svansins.
Auk daglegra ræstinga ISS eru unnin ýmis sérverkefni. Við þessi verkefni voru notaðir 86 lítrar af ræstiefnum og þar af voru 49 lítrar umhverfisvottaðir með Svaninum.
Aukalega voru keypt 424 kg af umhverfisvottuðum hreinlætispappír og 1.308 lítrar af ræstiefni til innanhússnota, en 85,7% af því var umhverfismerkt.
Pappírsnotkun
Bankinn vinnur markvisst að því að gera bankann pappírslausan. Svokallað prentský var tekið í notkun á árinu 2013, og í framhaldi af því hefur dregið úr pappírsnotkun í starfsemi bankans um 68%.
Prenttæki í lok árs 2016 voru 173 að tölu, sem er minnkun um 5 á milli ára, en um 417 færri en á árinu 2012.
Fyrir innleiðingu prentskýsins var megnið af útprentunum í lit en nú er 90% prentað í svart-hvítu og 93% prentað báðum megin.
Allir prentarar bankans eru umhverfisvottaðir af umhverfismerkinu The Blue Angel.
Nánast allur prentpappír keyptur á árinu var umhverfisvottaður með Evrópublóminu eða Svaninum.
Notkun umslaga var 1,2 tonn á árinu sem er minnkun um 0,7 tonn frá árinu áður. Alls 96,7% af umslögum voru umhverfismerkt með Evrópublóminu eða Svaninum.
Prentefni
Pappírsnotkun vegna útgefins efnis var 15,5 tonn, sem er aukning um 1 tonn á milli ára, og 12,9 tonn voru prentuð á umhverfisvottaðan pappír. Prentað efni samsvarar 127 grömmum á hvern viðskiptavin.
Af útgefnu efni Landsbankans var allt prentað hjá prentsmiðjum sem eru vottaðar af norræna umhverfismerkinu Svaninum.
Rafmagnsnotkun
Landsbankinn þekkir til fulls rafmagnsnotkun á 46.291 fermetrum, eða um 97% af heildarfermetrafjölda húsnæðis hans. Raforkunotkunin var 5.344 MWh á þessum fermetrum. Bankinn hefur ekki fullnægjandi vitneskju um rafmagnsnotkun í leiguhúsnæði þar sem rafmagn er hluti af leiguverði eða öðrum rekstrarkostnaði. Heildarnotkun er áætluð 5.502 MWh, eða sem svarar um 115 kWh/m2, sem er sambærilegt við árið á undan.
Heitavatnsnotkun
Vitneskja um heitavatnsnotkun er sömu takmörkunum háð og vitneskja um rafmagnsnotkun þar sem verð hennar er stundum innifalið í leiguverði eða öðrum kostnaði. Hitaveitur gefa upp notkun í rúmmetrum vatns en ekki orkuinnihaldi. Af þessum sökum er allur samanburður mjög erfiður þar sem hitastig á heitu vatni getur verið mismunandi á milli veitusvæða.
Landsbankinn hefur upplýsingar um heitavatnsnotkun á 35.186 fermetrum, eða um 74% af heildarfermetrafjölda húsnæðis hans. Mæld vatnsnotkun var 395.738 m3, sem gerir um 11 rúmmetra á hvern fermetra húsnæðis.
Eldsneytisnotkun
Bifreiðar í notkun hjá Landsbankanum við árslok voru 29 talsins. Nokkrar breytingar voru gerðar á bílaflotanum á árinu og hefur m.a. fækkað um einn bíl. Heildarakstur er áætlaður 455.531 km, eða 15.708 km á bíl að meðaltali.
Eldsneytisnotkun, mæld í kWh, hefur minnkað úr 407.914 í 401.830 sem gerir 1,5% minnkun frá fyrra ári en 17,5 % minnkun frá árinu 2012. Eldsneytisnotkun vegna aksturs starfsmanna var eftirfarandi:
Eldsneytisnotkun | 2015 | 2016 | ||||
---|---|---|---|---|---|---|
Eldsneyti | Notkun (dm3) | Orkuinnihald (kWh/dm3) | Orkunotkun (kWh) | Notkun (dm3) | Orkuinnihald (kWh/dm3) | Orkunotkun (kWh) |
Bensín | 16.114 | 8,98 | 144.707 | 13.237 | 8,98 | 118.868 |
Gasolía | 18.792 | 9,92 | 186.413 | 20.496 | 9,92 | 203.320 |
Metan | 7.551 | 10,17 | 76.794 | 7.831 | 10,17 | 79.641 |
Samtals | 407.914 | 401.830 |
Bein losun gróðurhúsalofttegunda stafar af eldsneytisnotkun, sbr. lið EN3.
Losun gróðurhúsalofttegunda við akstur var 84,4 tonn á árinu 2016, sem er 2,4% minnkun frá fyrra ári. Landsbankinn kolefnisjafnar losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2016 hjá Kolviði. Kostnaður við kolefnisjöfnun er 168.800 krónur og samsvarar gróðursetningu á 792 trjám.
Bein losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum | 2015 Koltvísýringur | 2016 Koltvísýringur |
---|---|---|
Bensín | 36,9 | 30,3 |
Gasolía | 49,6 | 54,1 |
Metan | 0,0 | 0,0 |
Samtals | 86,5 | 84,4 |
Með óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda er átt við losun sem stafar af orkuframleiðslu orkufyrirtækja. Öll orka sem Landsbankinn notar kemur annaðhvort frá fjarvarmaveitum (jarðvarmi) eða vatnsaflsvirkjunum. Í báðum tilfellum er um að ræða endurnýjanlega orkugjafa sem valda engri eða mjög lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna hita og rafmagns er því lítil sem engin.
Með orkunotkun utan bankans er átt við orkunotkun sem er hægt að rekja beint til starfsemi bankans en á sér stað hjá öðrum fyrirtækjum. Hér er átt við þjónustu sem er keypt af öðrum fyrirtækjum, t.d. flug og aðrar samgöngur.
Flug erlendis
Flugferðir starfsmanna voru 499 flugleggir á árinu 2016. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða erlendis var 158,5 tonn, sem er minnkun um 37 tonn frá árinu áður. Meðallosun á fluglegg var 317 kg.
Landsbankinn kolefnisjafnar losun gróðurhúsalofttegunda hjá Kolviði. Kostnaður við kolefnisjöfnun þessara flugferða er 317.000 krónur, sem samsvarar gróðursetningu á 1.488 trjám.
Flug innanlands
Mikil fækkun var á vinnutengdum flugferðum starfsmanna innanlands á árinu. Farnir voru 384 flugleggir á árinu 2016 samanborið við 578 fluglegg árið 2015. Losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við þessar ferðir var 10,2 tonn, sem er minnkun um 17,8 tonn á milli ára.
Ferðirnar eru kolefnisjafnaðar og er kostnaðurinn við það 20.400 krónur, sem samsvarar gróðursetningu á 96 trjám.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á árinu var 253,1 tonn, sem er um 250 kg á hvern starfsmann bankans. Það samsvarar 108 lítrum af bensíni á hvern starfsmann.
Landsbankinn kolefnisjafnar þessa losun og er kostnaðurinn við það 506.200 krónur, sem samsvarar gróðursetningu á 2377 trjám.
Landsbankinn hefur verið að minnka notkun á kælimiðlum í starfsemi sinni síðustu ár. Árið 2016 var engin notkun á kælimiðlum og því engin losun efna sem skaðleg eru fyrir ósonlagið.
Heildarmagn úrgangs hjá Landsbankanum var 201,3 tonn árið 2016, sem er minnkun um 14% frá fyrra ári. 58% af úrgangi bankans er flokkaður en unnið er að því að auka hlutfall flokkaðs úrgangs.
Meðhöndlun úrgangs (tölur í kg.) | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
---|---|---|---|---|
Blandaður úrgangur | 96.602 | 96.940 | 94.118 | 84.943 |
Flokkað | 120.062 | 108.130 | 139.214 | 116.308 |
Lífrænt | 21.910 | 25.713 | 21.669 | 22.567 |
Flokkaður úrgangur | 19.460 | 45.065 | 47.610 | 56.178 |
Byggingarefni | 44.676 | 13.740 | 3.120 | 3.750 |
Gagnaeyðing pappír | 30.326 | 22.350 | 60.057 | 32.272 |
Gagnaeyðing búnaður | 2.999 | 534 | 6.235 | 1.237 |
Spilliefni | 692 | 728 | 522 | 304 |
Samtals | 216.664 | 205.070 | 233.332 | 201.252 |
Landsbankinn ákvað árið 2012 að bjóða sérstök lán á betri kjörum til viðskiptavina, til kaupa á umhverfisvænum bílum. Forsaga umhverfisvænna bílalána nær aftur til ársins 2010 þegar Landsbankinn hóf að bjóða viðskiptavinum sínum sérstök lán til að breyta bifreiðum knúnum með jarðefnaeldsneyti til að nýta einnig metan-gas, sem á þeim tíma var talsvert í umræðunni. Nú bjóðast öllum sem hafa lánshæfi, og standast greiðslumat þegar það á við, að taka umhverfisvæn bílalán á hagstæðari kjörum hjá Landsbankanum.
Viðmið varðandi umhverfisvæn bílalán er að vél bifreiðarinnar sem keypt er sé með minnsta mögulegan útblástur óæskilegra losunarefna hvað umhverfið varðar. Er þar horft til flokka A/B/C þar sem bifreiðar losa frá 0-120 gr. af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra. Við fjármögnun slíkra bifreiða fá lántakendur hagstæða vexti og greiða 30% lægri lántökugjöld en ella. Eiga þessi kjör við um fjármögnun á kaupum nýrra og notaðra bifreiða og veitt er lán fyrir allt að 80% að kaupverði.
Viðtökur umhverfisvænna bílalána hafa verið mjög góðar. Kemur það til af betri kjörum og aukinni sölu bifreiða af þessu tagi, en þær njóta sífellt meiri vinsælda hjá almenningi. Nú er svo komið að umhverfisvæn bílalán eru orðin 13% af heildarútlánum bankans til fjármögnunar einstaklinga á bifreiðum.
Stefnt er að því að fjölga metan- og rafmagnsbílum í bílaflota bankans á næstunni.
Landsbankinn hefur ekki haldið utan um kostnað vegna umhverfisstjórnunar í bankanum en helstu kostnaðarliðir árið 2016 voru kolefnisjöfnun, endurgreiðslur vegna samgöngusamninga og skipting yfir í LED perur. Í lok árs keypti Landsbankinn fjóra umhverfisvæna fólksbíla. Þrír af nýju bílunum eru knúnir með metani og einn er rafmagnsbíll. Bílarnir eru ætlaðir til afnota fyrir starfsfólk sem þarf að nota bíl frá bankanum vegna vinnuferða. Á árinu var unnið að því að bæta flokkun á sorpi í höfuðstöðvum þar sem nú er boðið upp á fjórar mismunandi flokkunartunnur og kassa fyrir batterí. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með flokkun í útibúum. Almennt hefur flokkun gengið vel en þó var nokkuð um ranga flokkun.
Í ofangreindum tilfellum, nema hugsanlega hvað við kemur kolefnisjöfnuninni, hefur orðið umtalsverður sparnaður af verkefnunum sem vegur upp á móti kostnaði. Af þeim sökum er erfitt að meta raunverulegan kostnað/ávinning af þessum aðgerðum.