Fjármálafyrirtæki

Fjármálavísar

FS1 – Stefnur sem fela í sér rýni umhverfis- og samfélagsþátta

Landsbankinn er aðili að verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UNPRI) og hefur markað sér stefnu í samræmi við sex viðmið ábyrgra fjárfestinga. Nánar má lesa um stefnuna hér.

Á seinasta ári setti bankinn fram stefnu um almenn samfélagsviðmið í lánveitingum til fyrirtækja. Markmið stefnunnar er að auka gæði útlána, minnka áhættu og bæta samkeppnisstöðu lánþega til lengri tíma litið. Megininntak stefnunnar er að bæði starfsmenn bankans og viðskiptavinir skapi sér þekkingu til að geta metið tækifæri og áhættu sem viðkomandi málefni felur í sér fyrir starfsemina. Stefnan fjallar því ekki um að útiloka fyrirtæki frá viðskiptum heldur að eiga virkt samtal við þau til að minnka áhættu þeirra og auka samkeppnishæfni þeirra. Viðmið bankans í lánveitingum eru ekki aðgengileg almenningi að svo stöddu.

Í maí síðastliðnum setti bankinn sér stefnu um orðsporsáhættu. Þar er að hluta til tekið á samfélagsviðmiðum í samskiptum við viðskiptavini. Í þeirri stefnu eru tilgreindar atvinnugreinar sem bankinn vill ekki eiga viðskipti við.


Markmið:

Gæta að sjálfbærni við mat á fjárfestingarmöguleikum, lánveitingum og verðlagningu. Taka ákvarðanir um þjónustuframboð og aðra þætti í rekstri bankans út frá forsendum sjálfbærrar þróunar.

FS3- ferlar til að fylgjast með innleiðingu viðskiptavina á og fylgni við umhverfis og samfélagsleg skilyrði í samningum eða viðskiptum

Í nóvember hóf Hagfræðideild Landsbankans að greina á skipulagðan máta starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.

Í Einkabankaþjónustu er unnið með hvernig samfélagsábyrgð fléttast inn í ráðgjöf til viðskiptavina. Í sambandi við nýja stefnu um almenn atvinnugreinaviðmið í lánveitingum er Fyrirtækjasvið bankans að innleiða verkferla til að eiga samtal við viðskiptavini um þessi viðmið.

Markmið

Greina framtaksfyrirtæki og skráð fyrirtæki með tilliti til sjálfbærni

FS8 - Vara og þjónusta sem ætlað er að framkalla umhverfislegan ávinning

Landsbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) undirrituðu árið 2015 lánasamning til fimm ára, að fjárhæð 30 milljónir evra (jafnvirði um 4,2 milljarða króna). Í samningnum um lánarammann er kveðið á um að Landsbankinn endurláni upphæðina til verkefna, sem efla samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og til að fjármagna umhverfisvæn verkefni á Íslandi. Landsbankinn hefur veitt lánsfjármagni, sem fellur undir ofangreinda skilgreiningu, til verkefna og fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum. Fjármögnun NIB gefur Landsbankanum færi á að efla enn frekar lánveitingar til slíkra verkefna.

Lán NIB var fyrsta óveðtryggða lánið sem NIB veitti íslenskum banka frá því að fjármagnshöft voru sett á árið 2008.

NIB er fjölþjóðleg lánastofnun í eigu átta aðildarríkja: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn fjármagnar verkefni sem fela í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir lántakendur og aðildarríkin. NIB hefur hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn, AAA/Aaa, frá alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum Standard & Poor’s og Moody’s.

Markmið:

Hefja lánveitingar á grundvelli grænna skuldabréfa í samvinnu við erlenda fjármögnunaraðila.

Hjá Lanbankanum er í gildi skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu.

FS9 – Umfang og tíðni endurskoðunar og áhættumatsferlar

Áhættumat

Hjá Landsbankanum er í gildi skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu. Afrakstur þessa mats er áhættumiðuð kortlagning rekstraráhættu á samstæðugrunni. Þar sem áhættustig er hærra en gildandi áhættuvilji bankans eru leiðréttingaraðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir framkvæmdar og þeim fylgt eftir. Mat á rekstraráhættu nær til allra áhættuþátta rekstraráhættu, þ.m.t. þess að innri ferlar bregðist eða séu ófullnægjandi, mannlegra eða kerfislægra þátta eða utanaðkomandi atburða. Matsferlið er ekki sérhæft fyrir mat á framkvæmd umhverfis- eða samfélagsstefnu.

Endurskoðun

Innri endurskoðun er hluti af áhættustýringarramma bankans, auk þess að vera hluti af eftirlitskerfi hans. Innri endurskoðun metur rekstrarskilvirkni bankans, fylgni við ytri og innri reglur og kynnir bankastjórn. Starfsemi Innri endurskoðunar nær til allra sviða, þ.m.t. rekstraráhættu- og endurskoðunarferlisins.

Alþjóðlega skoðunarstofan BSI fylgist með fylgni bankans við staðal ISO 27001 um upplýsingaöryggi. Þar að auki framkvæmir bankinn sjálfur reglulega ýmsar úttektir til að hafa eftirlit með fylgni við staðalinn.

Hjá bankanum starfa ytri endurskoðendur sem fylgja verklagi til öflunar endurskoðunargagna um samstæðureikningsskil bankans. Við það athugar endurskoðandinn innra eftirlit sem snertir tilreiðslu og sannferðuga framsetningu fyrirtækisins á reikningsskilunum.


Öll almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Þær lausnir sem í boði eru batna stöðugt með bættri tækni og netlausnum.

FS12 – Atkvæðagreiðslustefna

Landsbankinn hefur ekki markað sér stefnu hvað varðar atkvæðagreiðslu um málefni samfélagsábyrgðar á aðalfundum fyrirtækja, þar sem bankinn fer með atkvæðarétt eða er ráðgefandi um atkvæðagreiðslu.

FS13 – Aðgangur að bankaþjónustu

Öll almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Þær lausnir sem í boði eru batna stöðugt með bættri tækni og netlausnum. Þannig hafa viðskiptavinir Landsbankans aðgengi að almennri bankaþjónustu allan sólarhringinn í gegnum hraðbanka, netbanka og farsímabanka bankans. Lausnir, sem byggja á rafrænum auðkenningum viðskiptavina og rafrænu samþykki þeirra, eru í hraðri þróun. Þegar fram líða stundir munu slíkar lausnir bæta möguleika til rafrænnar þjónustu og sjálfsafgreiðslu viðskiptavina enn frekar, sem mun auka þægindi og bæta aðgengi að bankaþjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að kenna viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslu meira og bæta aðgengi að henni í útibúum.

Á árinu 2016 lokaði bankinn afgreiðslu sinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að undangengnu útboði um leigu á húsnæði í flugstöðinni. Aðrar breytingar á afgreiðslustöðum snéru aðallega að auknu aðgengi viðskiptavina að sjálfsafgreiðslu. Afgreiðsla bankans á Seyðisfirði minnkaði að umfangi, þegar hún var flutt í húsnæði Sýslumannsins á Austurlandi og póstafgreiðslan aðskilin frá starfsemi bankans. Til viðbótar við þjónustu útibúa og afgreiðslna bankans heldur Landsbankinn úti þjónustuheimsóknum, viðskiptavinum til þæginda. Nánari upplýsingar um útibú bankans, afgreiðslur og þjónustuheimsóknir er að finna á heimasíðu bankans.

Sértæk þjónusta við viðskiptavini
Reykjavík Þjónustuíbúðir í Hæðargarði og Furugerði, einu sinni í mánuði
Suðurland Dvalarheimili aldraðra á Selfossi og Kirkjuhvoll á Hvolsvelli, einu sinni í viku
Akranes Höfði, dvalarheimili aldraðra, tvisvar í mánuði
Vestfirðir Þingeyri, Tálknafjörður, Reykhólahreppur og Dvalarheimilið Hlíf á Ísafirði, einu sinni í viku, og Súðavík, aðra hverja viku
Austurland Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður, tvisvar í mánuði

FS 14 – Sértæk þjónusta við viðskiptavini

Landsbankinn leitar stöðugt nýrra tækifæra til aukinnar hagkvæmni í rekstri. Felur það m.a. í sér að breytingar verða á útibúum og afgreiðslum bankans, bæði varðandi staðsetningu og eðli starfseminnar á ólíkum stöðum. Leitast er við að breytingar á útibúaneti haldist í hendur við tækniframfarir og aukna möguleika viðskiptavina til sjálfsafgreiðslu. Þessum breytingum er til lengri tíma ætlað að auka þægindi viðskiptavina og að spara þeim tíma, fé og fyrirhöfn við að sækja bankaþjónustu. Breytingarnar hafa bæði snert starfsemi bankans á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Landsbankinn heldur úti þjónustuheimsóknum á ákveðna staði og til ákveðinna hópa viðskiptavina sinna. Þá hefur bankinn leitað nýrra leiða til að tryggja viðskiptavinum aðgengi að ákveðnum þáttum bankaþjónustu, t.d. með samningum um reiðufjárúttektir við verslanir. Í þessu samhengi er horft til sérstakra þarfa eða aðstöðu viðskiptavina, t.d. fjarlægðar frá næsta afgreiðslustað, samgangna og til sérstöðu ákveðinna hópa viðskiptavina, t.d. eldri borgara og þeirra sem eiga óhægt um vik með að sækja þjónustu á næsta afgreiðslustað bankans.