Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC veitist fyrirtækjum þar sem launamunur kynjanna er innan við 3,5%. Í jafnlaunaúttekt PwC er gerð grein fyrir mun á grunnlaunum, föstum launum og heildarlaunum eftir kyni. Tekið er mið af aldri, starfsaldri, menntun, starfaflokki, stöðu í skipuriti og vinnustundum.
Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti til launa og starfstækifæri. Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar.
Í jafnréttisstefnu bankans kemur m.a. fram að hjá Landsbankanum skuli karlar og konur hafa jafna möguleika til starfsframa og njóta sömu réttinda í starfi. Í stefnunni kemur einnig fram að Landsbankinn stefni að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna, að hjá bankanum skuli störf ekki flokkast sem karla- eða kvennastörf og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Þá líðast hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%.
Landsbankinn skrifaði undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact, árið 2011. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins en í sáttmálanum eru sjö viðmið sem hafa skal að leiðarljósi við að efla konur innan fyrirtækja og auka þátt þeirra í atvinnulífinu.
Markmið samgöngusamninga er að fjölga valmöguleikum starfsmanna hvað varðar samgöngur þannig að þeir geti nýtt sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni; notað vistvænan ferðamáta þegar hentar en einnig haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.
Í samgöngusamningi felst að starfsmenn skuldbinda sig til að nýta annan ferðamáta en einkabílinn vegna ferða til og frá vinnu í 60% tilvika. Bankinn endurgreiðir þeim útlagðan kostnað, allt að 84.000 krónur á ári, eða 7.000 kr. mánaðarlega.
Um sl. áramót voru 424 starfsmenn með virka samgöngusamninga, eða 40% af heildarfjölda starfsmanna,. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 257 konur og 167 karlar en hlutfallið 60,6% konur er sambærilegt við kynjahlutfall starfsmanna bankans.