Í ábyrgum fjárfestingum felst að sjálfbær langtímaarðsemi er háð virku og vel stjórnuðu vistkerfi, heilbrigðu hagkerfi og heilbrigðu þjóðfélagi.
Til skamms tíma hafa verkefni á vegum UNPRI fyrst og fremst snúist um að efla vitund og skilgreina hugmyndafræðina á bak við ábyrgar fjárfestingar en nú eru aðildarfélög hvött til frekari innleiðingar á aðferðafræðinni og sýnileika varðandi árangur.
Á síðasta ári var áfram unnið að innleiðingu ábyrgra fjárfestinga á sviði Eignastýringar Landsbankans. Það er skýr vilji forsvarsmanna bankans að vera í farabroddi í þessum málaflokki.
Í nóvember hóf Hagfræðideild Landsbankans að greina á skipulagðan hátt starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Áform bankans um öflun upplýsinga voru kynnt á fundum með fulltrúum nokkurra fyrirtækja við almennt jákvæðar undirtektir. Spurningalistar um samfélagsábyrgð voru í kjölfarið sendir til skráðra fyrirtækja. Markmiðið var að afla upplýsinga um það hvernig viðkomandi félag tekur tillit til áhrifa rekstrarins á umhverfið, samfélagið og stefnu þess um stjórnarhætti. Upplýsingarnar verða aðgengilegar fag- og stofnanafjárfestum og nýttar innanhúss við fjárfestingarákvarðanir fyrir hönd viðskiptavina bankans. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.
Á árinu skilaði bankinn í annað sinn framvinduskýrslu til PRI og er skýrslan ætluð fjárfestum, viðskiptavinum og hagsmunaaðilum. Uppsetning skýrslunnar byggir á sex grunnstoðum PRI og er skýrslan opinber og aðgengileg á vefsvæði PRI.
Í september hélt bankinn ráðstefnu um ábyrgar fjárfestingar og innleiðingu þeirra á Íslandi. Aðalræðumaðurinn var Gil Friend frá Natural Logic Inc.
Í erindi sínu fjallaði Friend um margþættan ávinning fyrirtækja af að marka sér skýra stefnu um samfélagsábyrgð og sjálfbæran rekstur. Það geti til að mynda lækkað rekstrarkostnað og aukið nýsköpun. Mikilvægust væru þó áhrif aðgerða eða aðgerðaleysis á ímynd og orðspor fyrirtækja. Hann segir nauðsynlegt fyrir fyrirtæki og starfsfólk að taka virkan þátt í ferlinu, greina áhættu í rekstrinum, móta stefnu og aðgerðir, kynna markmið sín og árangur og hafa áhrif á önnur fyrirtæki með fordæmi sínu og fyrirmynd.
Þá greindi Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar á Íslandi frá því að Kauphöllin myndi gefa út ítarlegar leiðbeiningar til útgefenda verðbréfa um birtingu á upplýsingum um stefnu þeirra um ábyrgar fjárfestingar og samfélagsábyrgð. Kauphallirnar á Norðurlöndunum væru sammála um að leita eftir samstarfi við fyrirtæki í þessum málaflokki en ekki yrðu settar nýjar reglur.