Landsbankinn vill vera hreyfiafl í samfélaginu og vinna með öðrum að samfélagsábyrgð. Samfélagsstefna bankans er mótuð með víðtækri aðkomu tekjusviða bankans til að tryggja að hún sé hluti af kjarnastarfseminni. Í lok árs 2016 hlaut Landsbankinn gullmerki jafnlaunaúttektar PwC annað árið í röð sem er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar.
Í kjölfar heildarendurskoðunar á stefnu bankans árið 2015 var samfélagsstefna Landsbankans endurskoðuð á árinu 2016 út frá hinni nýju stefnu. Í stefnunni er áfram lögð áhersla á að vera til fyrirmyndar og að byggja upp velferð til framtíðar.
Samfélagsstefna Landsbankans er mótuð í samstarfi við tekjusvið bankans til að tryggja að hún sé hluti af kjarnastarfsemi bankans. Stefnan byggir á fyrri stefnu og fjórum alþjóðlega viðurkenndum grunnviðmiðum um sjálfbærni.
Í Landsbankanum er markvisst unnið að innleiðingu stefnu í ábyrgum fjárfestingum en slík stefna hefur að mati bankans jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur úr rekstraráhættu.
Landsbankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti til launa og starfstækifæri. Bankinn leggur einnig áherslu á að fjölga valmöguleikum starfsmanna hvað varðar samgöngur þannig að þeir geti notað vistvænan ferðamáta þegar hentar en einnig haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.