Samstarf

Landsbankinn tekur virkan þátt í mörgum samstarfsverkefnum til að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Verkefnin eru fjölbreytt og með þeim styður Landsbankinn m.a. öflugt slysavarna- og björgunarstarf, nýsköpun og fræðslu, ferðaþjónustu, íslenskt íþróttalíf, listir og menningu í landinu. Jafnframt styður Landsbankinn heilshugar við réttindabaráttu hinsegin fólks og jafnrétti kynjanna á öllum vígstöðvum.

Samfélagsstuðningur Landsbankans er mikilvægur liður í stefnu bankans um samfélagsábyrgð. Bankinn styður margvísleg samfélagsverkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði, með stuðningi útibúa við verkefni í nærsamfélagi og með gagnkvæmum samstarfssamningum.

Fjárstuðningur bankans til stærri samfélagsverkefna nam rúmlega 89 milljónum króna árið 2016. Þess utan styðja útibú bankans margvísleg verkefni, þ.m.t. íþrótta- og æskulýðsstarf, mannúðarfélög og frjáls félagasamtök. Heildarframlög námu 195,6 milljónum króna á árinu 2016.

Landsbankinn leitast við að auka þátttöku starfsmanna í samfélagsverkefnum, meðal annars með ráðgjöf og sjálfboðastarfi á vinnutíma. Landsbankinn hefur einnig boðið fram sérfræðiþekkingu starfsmanna við ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum. Þá hefur starfsfólk setið í dómnefndum, meðal annars í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups sem bankinn styrkir.

Landsbankinn leggur áherslu á að vera öflugur samherji viðskiptavina. Bankinn vill ekki aðeins veita fyrirtækjum framúrskarandi fjármálaþjónustu, heldur tekur bankinn þátt í fjölda verkefna sem hafa það leiðarstef að styðja við og efla þekkingu og fræðslu til fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum.

Heildarframlög 2016

195,6 milljónir króna

Gulleggið

Landsbankinn er styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga um allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

 

Nánar um Gulleggið

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitir Landsbankinn konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega. Landsbankinn veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum og tryggir þannig konum í nýrri starfsemi rýmri aðgang að fjármagni en ella og eykur möguleika þeirra á að stofna fyrirtæki. Samstarfssamningurinn er liður Landsbankans í að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar í landinu.

 

Nánar um Svanna

Fjármálafræðsla

Viðskiptalausnir á Einstaklingssviði bankans sjá um fjármálafræðslu til einstaklinga og eflingu fjármálalæsis. Markmiðið með fjármálafræðslunni er að tryggja að fólk hafi góða þekkingu á þeirri vöru og þjónustu, sem fjármálafyrirtæki bjóða, og þekki vel eigin fjármál.

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í grunn- og framhaldsskólum til að efla fjármálaskilning nemenda og gera þeim betur kleift að gera áætlanir til framtíðar. Fræðslan stendur öllum framhaldsskólum til boða og er skipulögð í samstarfi við fulltrúa þeirra. Alls þáðu 7 skólar boð um fjármálafræðslu árið 2016 þar sem um 1000 nemendur fengu fræðslu. Ekki fer fram kynning á vörum eða þjónustu bankans. Lögð er áhersla á að yngri starfsmenn Landsbankans sinni fræðslunni svo að hún sé sem næst því að vera á jafningjagrunni.

Bankinn tekur einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er kennsluefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin og starfsfólk þeirra um land allt. Í ár hafa 30 starfsmenn Landsbankans tekið þátt í verkefninu og frætt nemendur víða um land. Fjármálavit hefur heimsótt alls 4300 nemendur í 10. bekk í vetur.

Auk fræðslu til nemenda í grunn- og framhaldsskólum hefur Landsbankinn haldið fræðslukvöld í samstarfi við Stúdentaráð í útibúi bankans við Hagatorg.

 

Nánar um fjármálafræðslu

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum.

 

Nánar um samstarfið

Hinsegin dagar

Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi heilshugar og hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Auk þess að styðja hátíðina með fjárframlagi hefur Landsbankinn tekið að sér að dreifa dagskrárriti hátíðarinnar í öllum útibúum bankans í því skyni að kynna hátíðina enn betur um land allt. Þá hefur Landsbankinn verið bakhjarl fréttaveitunnar gayiceland.is.

 

Nánar um Hinsegin daga

Klasasamstarf í ferðaþjónustu

Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.
Ratsjáin er verkefni sem spratt upp úr ferðaklasanum. Þar gefst stjórnendum fyrirtækja í ferðaþjónustu tækifæri til að taka þátt í samstarfsverkefni með öðrum fyrirtækjum í sömu grein. Þau draga lærdóm af reynslu annarra, miðla af eigin reynslu auk þess sem fyrirtækin fá aðgang að sérfræðiráðgjöf á verkefnistímanum. Landsbankinn er einn aðal styrktaraðili verkefnisins.

Skólahreysti

Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári og keppa nú yfir 600 krakkar fyrir hönd skóla sinna, auk þess sem nokkur þúsund krakkar eru virkir félagar í stuðningsliðum. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.

Nánar um Skólahreysti

Konur í orkumálum

Félagið Konur í orkumálum er nýtt félag sem er opið öllum sem starfa við orkumál eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi. Markmið félagsins er að fræða og miðla upplýsingum um orkumál og jafnframt stuðla að betri tengslum milli kvenna sem starfa í orkugeiranum. Landsbankinn er bakhjarl félagsins.

 

Nánar um Konur í orkumálum

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Landsbankinn er bakhjarl Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, ásamt tíu öðrum fyrirtækjum. Landsbankinn hefur styrkt stofnun Vigdísar með veglegum hætti á síðustu árum. Styrkjum til stofnunarinnar verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda, og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.


Nánar um Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

UN Women



Landsbankinn hefur átt mjög gefandi samstarf við UN Women á Íslandi undanfarin ár og verið bakhjarl landsnefndarinnar í mikilvægum verkefnum. Bankinn er til að mynda bakhjarl HeForShe-verkefnisins en markmið þess er að hvetja karla og stráka til að láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum vígstöðvum. Síðastliðið haust styrkti bankinn nýja HeForShe-herferð undir slagorðinu #Ekki hata sem ætlað var að berjast gegn netníði. Mikilvægur hluti herferðarinnar var myndband sem sýnir hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna grasserar á spjallþráðum.

Landsbankinn skrifaði árið 2011 undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality Means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.

 

Nánar um UN Women

ÚH útflutningsverkefni Íslandsstofu


Landsbankinn er stuðningsaðili verkefnisins Útflutningsaukning og hagvöxtur, ÚH verkefnið, sem Íslandsstofa hefur umsjón með. Tilgangurinn er að þjálfa stjórnendur fyrirtækja sem hafa hug á að markaðssetja vöru eða þjónustu erlendis. Þjálfunarferlið tekur fjóra mánuði þar sem teknar eru sex tveggja daga þjálfunarlotur. Farið er yfir alla helstu þætti og sérfræðingar á ólíkum sviðum fengnir til að aðstoða hópinn. Að jafnaði komast um tíu til tólf fyrirtæki inn í verkefnið á hverju ári. Að þjálfuninni lokinni eiga fyrirtækin fullbúnar og raunhæfar viðskipta- og aðgerðaáætlanir fyrir viðskiptahugmynd sína.

 

Nánar um útflutningsverkefnið ÚH

Ísland allt árið

Landsbankinn hefur frá upphafi stutt markaðsverkefnið Ísland – allt árið. Tilgangur verkefnisins er að festa ferðaþjónustu enn betur í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi hennar með það fyrir augum að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Markaðssetning fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmdina.

 

Nánar um Ísland allt árið

Öndvegissetur um verndun hafsins

Landsbankinn er einn af stofnaðilum Hafsins, öndvegisseturs um verndun hafsins, en setrinu er ætlað að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni. Verkefnið er í senn umfangsmikið og metnaðarfullt og er stutt af fjölmörgum aðilum auk Landsbankans. Hafið er vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi.

 

Nánar um öndvegissetrið

Íslenski sjávarklasinn

Landsbankinn er samstarfsaðili Íslenska sjávarklasans, en tilgangur hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á nýtingu sjávar, með beinum eða óbeinum hætti. Íslenski sjávarklasinn hefur frá stofnun stuðlað að framþróun og nýsköpun í þeim greinum sem mynda klasann, í samstarfi við fyrirtæki og menntastofnanir, og stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi. Um 60 fyrirtæki og stofnanir í margvíslegri sjávartengdri starfsemi á Íslandi eiga formlega aðild að samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans.

 

Nánar um Íslenska sjávarklasann